Innlent

Þurfa að loka flutningsleið sprengiefnisins

Kjartan Kjartansson skrifar
Til stendur að flytja sprengiefnið sem fannst í Njarðvík í dag til förgunar á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli í kvöld og loka þarf flutningsleiðinni á meðan, að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum. Bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir sérstakt að svo mikið magn sprengiefnis sem enginn vissi um hafi fundist.

Um 150 kíló af dýnamíti fundust í litlum gámi á iðnaðarsvæði verktaka í Njarðvík í morgun og voru íbúðarhús í næsta nágrenni rýmd vegna aðgerða sprengjusérfræðinga og lögreglu. Rýmingin er enn í gildi og er óvíst hvenær íbúum verður leyft að snúa til síns heima.

Sérstökum vökva var úðað yfir sprengiefnið til að gera það óvirkt fyrir flutning. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að talið sé að sprengiefnið hafi verið í gámnum í allt að tíu til fimmtán ár.

Bjarney Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn, sagði í fréttunum að aldrei hafi verið hætta á ferðum. Til standi að flytja sprengiefnið með vörubifreið á varnarsvæðið í kvöld og að loka þurfi flutningsleiðinni á meðan.

Í færslu á Facebook-síðu lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum kom fram íbúar megi búast við því að verða varir við sprengingar þegar efninu verður eytt í kvöld.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði sérstakt að svo mikið magn sprengiefnis sem enginn vissi um hefði skyndilega fundist í dag. Bæjaryfirvöld hafi fengið reglulegar upplýsingar um stöðuna í dag en engin hætta sé á ferðum fylgi fólk fyrirmælum yfirvalda.

Ekki hafi reynst þörf á því að bjóða íbúum sem þurftu að yfirgefa heimili sín húsaskjól þar sem þeir virðist hafa leitað til vina og ættingja.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×