Júlíus Már Baldursson í Þykkvabænum kallar ekki allt ömmu sína þegar kemur að ræktun hænsfugla en auk þess að vera um tvö hundruð landnámshænur þá er hann kominn með nokkra svarta kalkúna í hænsnahúsið sitt.
„Mér áskotnuðust egg í fyrra, sem ég gerði að gamni mínu og setti í útungunarvél og fékk út úr því kalkúna, sem eru upphaflega komnir frá Færeyjum, svartir kalkúnar, svokallaðir koparkalkúnar því það kastar kopar á þá í dagsbirtu og sól. Það er bara gaman að þessu,“ segir Júlíus Már.
Hann segir að það hafi alltaf verið til hvítir kalkúnar á Íslandi, stundum brúnir en aldrei svartir.
„Þetta eru fallegir fuglar finnst mér og sérstök hljóðin í þeim og þeir eru sérstakir í útliti líka, þetta er nýmæli, svona fuglar hafi ekki verið til á Íslandi áður.“

„Já, hann sagði mér þessi fyrrverandi eigandi í Færeyjum að hann hefði lógað tveimur fyrir jólin í fyrra hjá sér, sem voru einmitt jafn gamlir mínum fuglum og þeir hefðu verið átta og hálft og níu kíló, þannig að það er eitthvað á beinunum. Jólasteikin er klár, allavega hér úti hér hjá mér,“ segir Júlíus Már um leið og hann skellir upp úr.