Á árinu 2017 var meðalverð í miðborginni 20 prósent hærra en í nálægum hverfum og rúmlega 30 prósent hærra en á höfuðborgarsvæðinu öllu.
Það sem af er árinu 2019 hefur söluverð nýrra íbúða í miðborginni einungis verið 6 prósent hærra en í nálægum hverfum og um 16 prósent hærra en meðaltal höfuðborgarsvæðisins. Það er því ljóst að miðborgarálagið hefur lækkað verulega á þessu tímabili.
Seldar íbúðir minni en fermetraverð ekki hærra
Á árinu 2017 var meðalstærð nýrra seldra íbúða í miðborginni um 133 fermetrar samkvæmt vefsjá Þjóðskrár Íslands. Í ár hafa þær verið um 86 fermetrar, þannig að seldar íbúðir í ár eru töluvert minni en áður.„Slíkt ætti að öðru jöfnu að skila hærra fermetraverði en ella. Það hefur ekki gerst í tilviki miðborgarinnar sem gerir verðbreytinguna enn áhugaverðari,“ segir í Hagsjánni.
Þá hefur verð á nýjum seldum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu þróast mjög misjafnlega eftir hverfum á síðustu þremur árum.
Eins og áður segir hefur meðalfermetraverð í miðborginni lækkað og sama má segja um Laugardal. Mesta verðhækkunin hefur verið í Hlíðum/Háaleiti og í Urriðaholti.
„Það er athyglisvert að mikil verðhækkun í Hlíðum/Háaleiti helst í hendur við að meðalstærð íbúða sem skipt hafa um hendur hefur farið minnkandi í þeim hverfum, öfugt við það sem gildir um miðborgina.“
Meðalhækkun á verði nýrra íbúða á höfuðborgarsvæðinu á þessum tíma var 12 prósent. Opinber vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um u.þ.b. 10 prósent á sama tíma, en þar er verið að mæla bæði nýjar og eldri íbúðir.