Sjá einnig: Skólahald í Korpu mun leggjast af
„Það sem er verið að gera núna, þeir eru að fara gegn gildandi deiliskipulagi,“ segir Ingvar í samtali við Vísi. Það liggi fyrir samkvæmt deiliskipulagi að skóli eigi að vera í hverfinu og því þyrfti að breyta deiliskipulagi áður en tekin sé ákvörðun um að loka skólanum. „Þetta er svo glórulaust allt saman,“ bætir Ingvar við.
Í tilkynningunni er haft eftir Skúla Helgasyni, formanni skóla- og frístundaráðs að staðreyndin sé sú „að nemendum í Korpu hefur fækkað verulega undanfarinn áratug.“ Þar séu nú einungis 59 börn og þeim hafi farið fækkandi á síðustu sjö árum. Þetta segir Ingvar vera óheiðarlega og ranga framsetningu þar sem ástæðuna fyrir fækkun barna í skólanum megi einfaldlega rekja til fyrri ákvarðana borgaryfirvalda um að sameina skóla og færa börn um skóla milli hverfa.
Í Korpu búi um 150 börn á grunnskólaaldri samkvæmt þjóðskrá að sögn Ingvars, ástæðan fyrir því að aðeins séu 59 börn í skólanum sé sú að borgin hafi áður tekið ákvörðun um að hin börnin gengju í skóla annars staðar. Bæði foreldrar og nemendur við skólann, þeirra á meðal dóttir Ingvars, hafi sent borgarfulltrúum meirihlutans bréf en viðbrögðin hafi verið dræm. Þá séu hann og aðrir foreldrar miður sín yfir þessari ákvörðun borgaryfirvalda.

Spurður hvort nægt samráð hafi verið átt við íbúana segir Skúli að tillagan byggi á niðurstöðum starfshóps þar sem íbúar, foreldrar, kennarar og skólastjórar og nemendur voru áttu aðkomu. Starfshópurinn skilaði tveimur tillögum, annars vegar um að einni deild yrði lokað eða hins vegar að ráðast í mikla uppbyggingu til að fjölga íbúum í hverfinu. Umhverfis- og skipulagssvið komst að þeirri niðurstöðu að hin fyrrnefnda væri raunhæfari kostur.