Erlent

For­setinn endur­kjörinn í Botsvana

Atli Ísleifsson skrifar
Mokgweetsi Masisi tók við embætti forseta Botsvana á síðasta ári.
Mokgweetsi Masisi tók við embætti forseta Botsvana á síðasta ári. EPA
Lýðræðisflokkur Botsvana (BDP), með forsetann Mokgweetsi Masisi í broddi fylkingar, hefur unnið sigur í þingkosningunum sem fram fóru í landinu fyrr í vikunni.

BDP virðist hafa tryggt sér 29 sæti á þinginu hið minnsta þar sem 57 þingmenn eiga sæti. Hlaut flokkurinn í kringum 51 prósent atkvæða.

„Talning atkvæða stendur enn yfir, en ef litið er til fjölda þingsæta sem BDP hefur tryggt sér hingað til lít ég á það sem skyldu mína að lýsa Mokgweetsi Masisi sem forseta í Botsvana,“ sagði Terrence Rannowane, æðsti dómari landsins í samtali við fjölmiðla.

Kosningarnar fóru fram á miðvikudaginn og í morgun var búið að telja öll atkvæði í 73 prósent kjördæmanna. UDC, bandalag stjórnarandstöðuflokka, hefur tryggt sér þrettán þingsæti. Ian Khama, fyrrverandi forseti landsins, var einn leiðtoga UDC í kosningabaráttunni.

Botsvana hefur oft verið lýst sem fyrirmynd í álfunni þegar kemur að pólitískum stöðugleika og skilvirku lýðræðisfyrirkomulagi, en stjórnarandstæðingar hafa þó sakað leiðtoga BDP um einræðistilburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×