Óhófleg tortryggni í garð viðskiptalífsins
Þó svo að vissulega verði seint allir á eitt sáttir um ákvarðanir og úrskurði Samkeppniseftirlitsins er það ekki svo að atvinnurekendur á Íslandi óski þess að starfa án eftirlits eða utan ramma laga. Þvert á móti hafa forsvarsmenn atvinnurekenda ýtt á eftir því að regluverkið sé styrkt þannig að það feli í sér þann fyrirsjáanleika og réttarvissu sem almennt er talin mikilvægur hornsteinn í heilbrigðu viðskiptalífi. Því miður getur reynst erfitt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri, eða eiga i uppbyggilegu samtali um úrbætur, ef viðhorfið í garð viðskiptalífsins einkennist af óhóflegri tortryggni.Atvinnulífið frumkvæði að því að gefa út leiðbeiningar um samkeppnislög
Vert er að minnast þess að í apríl á síðasta ári stóðu Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Lögmannafélag Íslands að útgáfu um leiðbeiningar í samkeppnisrétti undir heitinu „Hollráð um heilbrigða samkeppni“. Voru leiðbeiningarnar unnar með sérfræðingum á sviði samkeppnisréttar og ritaði forstjóri Samkeppniseftirlitsins meðal annarra formála ritsins og hrósaði útgefendum fyrir frumkvæðið að slíkri útgáfu: „Með [útgáfunni] er stuðlað að því að draga úr samkeppnishindrunum og fækka brotum gegn ákvæðum samkeppnislaga“. Markmiðið með útgáfu leiðbeininganna var að auðvelda stjórnendum og starfsfólki fyrirtækja að glöggva sig á þeim reglum sem gilda um fyrirtæki og varða samkeppni – en regluverkið er flókið og matskennt oft á tíðum og því oftar en ekki þrautinni þyngra að átta sig almennilega á því.Samkeppnislög meira íþyngjandi hér en á Norðurlöndunum
Ráðherra Þórdís Kolbrún sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að „markmið [frumvarpsins væri] að endurmeta þær breytingar sem gerðar voru eftir hrun og stuðla að frekari skilvirkni innan Samkeppniseftirlitsins og létta á umfangi verkefna svo [það] geti betur einbeitt sér að þeim mikilvægu þáttum sem þarf að sinna.“ Í þessu samhengi má nefna að skv. árskýrslu Samkeppniseftirlitsins til OECD var 40% af tíma þess varið í samrunamál árið 2018.Séu samkeppnislög of íþyngjandi standa þau í vegi fyrir eðlilegri hagræðingu og framleiðni í atvinnulífinu og slíkt skilar sér óhjákvæmilega í hærra vöruverði til neytenda. Í ljósi þessa hefur Viðskiptaráð bent á fjögur atriði sem eru meira íþyngjandi hér en á Norðurlöndunum:
- Í fyrsta lagi má Samkeppniseftirlitið grípa inn í rekstur fyrirtækja óháð því hvort fyrirtækin hafi brotið samkeppnislög – en slíkt tíðkast ekki á Norðurlöndunum
- Í öðru lagi hefur Samkeppniseftirlitið að meginreglu heimild til að leggja hald á gögn við rannsókn - en slíkt tíðkast heldur ekki á Norðurlöndunum
- Í þriðja lagi þurfa fyrirtæki hér á landi leyfi Samkeppniseftirlitsins til að hefja samstarf sem hagnast neytendum í stað þess að þurfa einungis að tilkynna um samstarfið líkt og tíðkast á Norðurlöndunum
- Í fjórða lagi hefur Samkeppniseftirlitið heimild til að kæra úrskurð æðra stjórnvalds til dómstóla, ólíkt því sem tíðkast á Norðurlöndunum