Allir bílarnir fimm sem lentu í árekstri á rampinum á milli Turnsins í Kópavogi og Smáralindar í mikilli hálku í morgun voru dregnir óökufærir af vettvangi, samkvæmt upplýsingum frá slysaþjónustunni Árekstri.is sem kölluð var á slysstað.
Varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hafði ekki frekari upplýsingar um slysið, utan þess að ekki urðu slys á fólki. Þá vissi hann ekki hver tildrög þess voru en mynd af vettvangi sýnir fjóra bíla í kös á einni akrein, og þar af snýr einn á móti umferð.
Mikill erill var hjá viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu í morgun vegna hálku. Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við Vísi um klukkan hálf ellefu í morgun að frá miðnætti hefði alls verið tilkynnt um sjö umferðarslys, öll hálkutengd.
Allir dregnir óökufærir af slysstað

Tengdar fréttir

Rákust á í hálkunni við Turninn
Að minnsta kosti fjögurra bíla árekstur varð á rampinum á milli Deloitte-turnsins og Smáralindar í Kópavogi í morgun.