Sleit gæsina af snúrustaur
Miklum sögum fer af þessum hundi sem nú er búsettur á Vík í Mýrdal og er að öðlast nokkra frægð á landsvísu. Hann á að hafa drepið gæs, kött og lamb en eitthvað er allt þetta málum blandið. Sannleikurinn er sá að Husky-hundurinn er hafður fyrir rangri sök, í það minnsta í því að hafa drepið gæsina. Þannig var að hann var laus, sá gæs sem veiðimaður í þorpinu hafði skotið og lét hanga eins og margir veiðimenn gera með bráð sína.„Já, hann sleit gæsina af snúrustaur hjá veiðimanni,“ segir Gísli. Og gæddi sér á henni. Erfitt er að halda því gegn hundi þó hann grípi gæsina fái hann slíkt tækifæri. Hangandi gæs freisting sem erfitt er að standast. Fyrir hvaða hund sem er. Um er að ræða fimm ára gamlan hund og er hann þykkur og óárennlegur eins og títt er um Husky-hunda en hann virðist ekki vera hættulegur.
Sami gamli þorparinn
Vandamálið er hins vegar að þetta er hundur með fortíð. Fyrir þremur árum, eða árið 2016, reif hann sig lausan frá eiganda sínum, ásamt fleiri hundum, sem hlupu upp kött og drápu. Mikill styr varð í bænum í kjölfarið og var hundinum þá komið í Reykjavík í var. Hann er nýkominn í bæinn aftur og virðist alltaf sami gamli þorparinn í hugum bæjarbúa.
Eftirlit haft með hundinum
„Þetta eru þrjú ár síðan en það var aldrei hægt að sanna þetta,“ segir Gísli og tekur fram að ef þetta hefði legið fyrir hefði hundinum verið lógað á stundinni.Lögreglan er búin að ræða við eigandann, sem er í sjokki vegna þessa og hitta hundinn. Þá hefur hún vakandi auga með því ef hundurinn sést laus. „Við höfum tilkynnt yfirstjórninni um þetta atvik og höfum eftirlit með þessu. Meira getum við ekki gert í bili,“ segir Gísli. „Við höfum áhyggjur af þessu og fólk hefur áhyggjur af þessu. En svona er þetta,“ segir Gísli sem telur ástæðulaust að vekja upp meiri áhyggjur en efni standa til og alls ekki með ósönnum sögusögnum.