Innlent

Slökkvi­lið og bæjar­starfs­menn lögðu frá­veitu­kerfinu á Siglu­firði lið í miklu vatns­veðri

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Frá Siglufirði í gær.
Frá Siglufirði í gær. Sigurður Ægisson
Mikið vatn flæddi um götur Siglufjarðar í gærkvöldi eftir úrhellisrigningu, í hvassri norðanátt, frá miðjum degi og fram á kvöld. Svo mikið var vatnið að það flæddi upp um niðurföll og brunna á nokkrum stöðum í bænum.

Sigurður Ægisson, íbúi á Siglufirði, sagðist í samtali við fréttastofu í gærkvöldi, aldrei áður hafa séð vatn komu upp um vatnsbrunna í bænum en hann birtir myndir af ástandinu á vefnum siglfirðingur.is.

Að sögn Sigurðar var ástandið verst á Eyrinni, eða á mörkum Túngötu og Þormóðsgötu, en einnig á Eyrarflöt og Langeyrarvegi.

Svo mikið var vatnið á Siglufirði að það flæddi upp um niðurföll og brunna á nokkrum stöðum í bænum.Sigurður Ægisson
Slökkvilið Fjallabyggðar var kallað út snemma í gærkvöldi vegna vatnsveðursins og vann slökkviliðsstjóri liðsins, Ámundi Gunnarsson, við annan mann, að því létta á fráveitukerfinu með því að nota dælur slökkviliðsins til þess að koma vatni frá bænum.

Fréttastofa náði tali af Ámunda þegar slökkvilið hafði lokið vinnu sinni í gær. Hann sagði úrkomuna að baki og að ástandið í bænum væri skárra. Auk slökkviliðs hafi björgunarsveitin á staðnum, með sex til átta menn, sinnt útköllum.

Ámundi sagði að mögulega hefði flætt inn í tvö til þrjú hús og að vatnið hafi bæði komið upp um niðurföll og í gegnum veggi.

Bæjarbúar í Fjallabyggð undrast að flóð sem þessi séu nær árlegur viðburður sérstaklega í ljósi þess að sveitarfélagið fór í miklar framkvæmdir til þess að efla fráveitukerfið. Þær framkvæmdir hafa ekki komið í veg fyrir að enn flæðir inn á lægsta punkt Siglufjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×