Holskefla óhróðurs á netinu
Bílaleigan, sem nú hefur starfað í sjö ár, hefur að undanförnu fengið yfir sig herfilegar umsagnir á netinu, á vef sem heitir Trustpilot. Þar hefur magnast upp nokkur ófriðarbál og er ákaft varað við bílaleigunni, bílarnir sagðir gamlir og lélegir, allt öðru vísi en um var talað og auk þess eru þeir á FairCar sakaðir um að stunda glæpsamlega starfsemi; það að senda út bakreikninga, óskýrðan aukakostnað og að rukka fyrir tilhæfulaust tjón.
„Það sem bílaleigur gera er að þær taka aðeins heimild til að staðfesta að eiginábyrgð viðskiptavina sé til ráðstöfunar á kortinu. Þannig að upphæðin er ekki tekin út af kortinu. Það eru strangar reglur sem við þurfum að fylgja frá kortafyrirtækjunum, þetta er ekki eins og bílaleigan geti tekið af kortum viðskiptavinarins eins og þeim þóknast. Það eru gróusögur, þetta virkar ekki þannig,“ segir Bjarki og bætir því að ef hann gæti valið væru engin tjón, þau væru sannarlega ekki fyrir reksturinn heldur verulegt tap.
Algengt að því sé hótað að fjallað verði illa um fyrirtæki
Þau hjá FairCar, sem er fjölskyldufyrirtæki en forstjóri leigunnar er bróðir Bjarka, Einar Hallsson, hafa oft orðið fyrir hótunum. Að ef sá kostnaður sé innheimtur muni viðkomandi siga fjölmiðlum á þau og/eða skrifa um þá „bad review“. Þetta eru algengar hótanir. Og ekkert vantar uppá að bílaleigunni sé nú úthúðað á netinu, á þessum tiltekna vef.„Réttur kúnnans er svo mikill innan gæsalappa. Áður náðum við að halda þessu góðu með að senda út á alla sem áttu viðskipti við okkur ósk um umsögn. Nú hafa þessar slæmu umsagnir safnast saman.“
Og vissulega er það svo að til eru umsagnir um reynslu viðskiptavina þar sem fyrirtækinu er hrósað og það sagt afbragð. En, nú staflast hinar neikvæðu umsagnir upp.
Misvandaðir viðskiptavinir
Bjarki segir það vissulega erfitt að fá svona nokkuð í andlitið en segir að fólk átti sig oftast á því, þegar þetta er útskýrt, að ekki sé gott við að eiga.
Bjarki lýsir því að þetta sé ný staða fyrir fyrirtæki í ferðamennsku og veitingarekstri með þessum vefjum sem gera út á umsagnir, svo sem TripAdvisor og fleiri vefir. Þar standi rekstraraðilar oft frammi fyrir hótunum um að ef ekki sé látið að vilja viðskiptavinarins þá verði skrifað „bad review“ eða neikvæð umsögn.