Skoðun

Þynning byggðar og auknar umferðartafir 

Elvar Orri Hreinsson skrifar
Byggð hefur þynnst verulega undanfarna þrjá áratugi og fer nú meira landrými undir hvern íbúa höfuðborgarsvæðisins en nokkru sinni fyrr.

Frá árinu 1994 hefur hlutfall íbúða í Reykjavík af heildarfjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 10 prósentustig og stendur nú í um 60%. Er þetta afleiðing mikillar uppbyggingar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur þar sem íbúðafjöldi hefur tvöfaldast frá árinu 1994. Þetta hefur leitt til þess að aldrei fyrr hafa fleiri íbúar á höfuðborgarsvæðinu búið utan Reykjavíkur.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga eftir sem áður erindi við miðbæinn og nærliggjandi svæði enda er þar mestur þéttleiki vinnustaða, skóla, íþróttamannvirkja og verslunar- og skrifstofuhúsnæðis auk annarra innviða. Þessi þróun hefur því haft í för með sér það aukna álag á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins sem mikið er rætt um þessi dægrin. Samtök iðnaðarins (SI) telja þjóðhagslegan kostnað vegna umferðartafa nema 15 milljörðum króna á ársgrundvelli vegna tapaðs vinnu- og frítíma einstaklinga og atvinnurekenda.

Mun þétting byggðar ná fram að ganga? Tölfræðin bendir til þess að svo verði ekki.

Reykjavík er stærsta sveitarfélag landsins og gegnir því mikilvægu hlutverki varðandi heilbrigði íbúðamarkaðarins. Ef litið er aftur um áratug hafa um 304 íbúðir komið inn á markaðinn að meðaltali á ári hverju í Reykjavík. Meðalfjölgun íbúða fyrir þann tíma og aftur til 1972 er um 660 íbúðir árlega, eða rúmlega tvöfalt fleiri íbúðir. Sé miðað við fjölda fullkláraðra íbúða í Reykjavík á undanförnum árum og spár SI má reikna með að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur muni áfram vaxa hlutfallslega hraðar en Reykjavík. Til að snúa þeirri þróun við þyrftu í Reykjavík að vera minnst 60% af þeim íbúðum sem koma á markaðinn á næstu árum. Miðað við spá SI nemur það rúmum 1.300 íbúðum eða hátt í þreföldum þeim fjölda sem kom inn á markaðinn á síðastliðnu ári svo að dæmi sé tekið. Verður að teljast afar ólíklegt að sú verði raunin.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×