Kristján Þórðarson augnlæknir hefur verið valinn nýr stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi. Hann tekur við stöðunni af Vali Valssyni, fyrrverandi bankastjóra, sem verið hefur stórmeistari Frímúrarareglunnar frá 2007.
Í tilkynningu frá Frímúrunum hefur Kristján á undanförnum árum gegnt embætti kanslara reglunnar, en hann gekk í raðir Frímúrara árið 1984.
„Kristján er fæddur 5. júlí 1950. Eiginkona hans er Guðrún G. Þórarinsdóttir líffræðingur á Hafrannsóknarstofnun. Börn þeirra eru: Guðlaug Þóra, Unnur Ýr, Þórður Örn og Þórarinn Már.
Innsetning Kristjáns Þórðarsonar í embætti Stórmeistara verður laugardaginn 26. október.
Frímúrarareglan á Íslandi er sjálfstæð samtök karlmanna úr öllum starfsgreinum þjóðfélagsins. Hún leitast við að efla hjá félögum sínum sjálfsþekkingu, umburðarlyndi, góðvild og náungakærleika,“ segir í tilkynningunni.
Kristján nýr stórmeistari hjá Frímúrunum
Atli Ísleifsson skrifar
