Fulltrúar Neytendastofu hafa tekið úr sölu um 100 tegundir af rafrettuáfyllingum þar sem nikótíni hefur verið bætt við vökva í verslunum. Stofnunin segist hafa ráðist í aðgerðirnar eftir að hafa fengið ábendingar um kaupmenn sem seldu nikótínáfyllingar sem þeir blönduðu sjálfir. Um sé að ræða tilfelli þar sem nikótíni er bætt út í nikótínlausa vökva sem seldir eru í verslunum.
Við þær aðstæður komi ekki fram hve mikið nikótín er í vökvanum. „Erfitt er að komast að hvaða innihaldsefni eru í slíkri áfyllingu, við hvaða aðstæður blöndunin fer fram, hvernig mælingar fara fram eða hver eiturhrif eru,“ segir í útskýringu á vef Neytendastofu.
„Neytendastofa vekur athygli á að einkenni eitrunar af völdum nikótíns eru til dæmis uppköst, hraður hjartsláttur, öndunarerfiðleikar og aukin munnvatnsframleiðsla. Áfyllingar fyrir rafrettur mega að hámarki innihalda 20 mg/ml af nikótínvökva,“ segir þar aukinheldur og bætt við að á vefsíðu Neytendastofu megi nálgast lista yfir rafrettur og nikótínáfyllingar fyrir þær sem hafa hlotið markaðsleyfi.
Tóku 100 tegundir af rafrettuvökvum úr sölu
