Innlent

Safna varnarliðsmunum fyrir nýtt safn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Byggðasafn Reykjanesbæjar safnar nú varnarliðsmunum en til stendur til að opna stærðarinnar sýningu um sögu varnarliðsins á næstu árum. Nú þegar hafa merkir munir safnast og eru þeir varðveittir í stóru geymsluhúsnæði safnsins.

Meðal þess sem safnast hefur er stærsti slökkvibíll sem hefur verið framleiddur í heiminum, áttatíu tonna trukkur.

„Hann kom hingað í þjónustu hjá slökkviliðinu á vellinum árið 1985 var meira og minna í notkun til 2006. Þetta er bíll sem var við það að hverfa og fara í förgun þannig okkur þótti mjög mikilvægt að geta náð honum hingað í hús,“ segir Eiríkur Páll Jörundsson, forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Það sama gildi um alla muni frá tímum varnarliðsins á Íslandi, enda saga liðsins stór hluti af sögu Suðurnesja.

„Við erum að reyna að koma í veg fyrir að þetta hverfi og nýtist okkar í fyrirhugaðri sýningu,“ segir Eiríkur Páll en til stendur að opna sýninguna í Reykjanesbæ innan þriggja ára.

„Við erum ekki að sjá það fyrir okkur sem stríðsminjasýningu. Varnarliðið var miklu meira en það, og ekki síst hvað varðar veru varnarliðsins á menningu og samfélagið hér í Reykjanesbæ og landið allt,“ segir Eiríkur Páll.

„Það þekkja náttúrulega allir áhrif af kanasjónvarpinu og kanaútvarpinu.“ Nú þegar hefur mikið af merkum munum safnast og eru þeir varðveittir í stóru geymsluhúsnæði. „Húsgögnum og öllu mögulegu ofan af velli, umbúðir af mat og myndir,“ segir Eiríkur Páll sem hvetur alla sem eiga einhverja muni frá þessum tíma að hafa samband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×