Það er mjög sjaldgæft að almenningi sé hleypt inn í fangelsið á Litla Hrauni og hvað þá til að fara þangað í bíó í íþróttasalnum. Það gerðist þó í gær þegar kvikmyndahátíðin Brim fór fram á Eyrarbakka þar sem nokkrar kvikmyndir um plast og skaðsemi þess voru sýndar á mismunandi stöðum í þorpinu, m.a. á Litla Hrauni. Þar var boðið upp á veitingar, reyndar ekki popp og kók en kaffi, gos og nammi með myndinni.
Áður en kvikmyndin var sett í gang hélt Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsisins fróðlegt erindi um flokkun á sorpi og endurvinnslu í fangelsinu.
Það kom gestum á óvart og ekki síst Halldóri Vali og fangavörðum á staðnum þegar nýr dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir mætti óvænt í íþróttahúsið með vinkonu sinni til að horfa á myndina og hlusta á fyrirlesturinn.
Fram kom hjá Halldóri Vali að endurvinnsla er eitt af verkefnum fangelsisins, sem atvinnumál hjá föngum en bílfarmar frá Íslenska Gámafélaginu koma í hverri viku í fangelsið með ónýt raftæki, sem fangarnir sjá um að flokka.
„Þarna erum við ekki fyrir neinum, við erum ekki í samkeppni við vernduðu vinnustaðina og við erum ekki í samkeppni við atvinnulífið. Þarna erum við búin að finna þann vettvang, sem við teljum að sé okkar vettvangur í atvinnustarfsemi og erum sífellt að reyna að finna fleiri svona verkefni“, segir Halldór Valur.

„Við erum að taka þúsund þvagsýni af skjólstæðingum á hverju ári. Það eru einnota glös í kringum það, ofsalega mikið plastumhverfi“.
Halldór Valur segir og starfsmenn á Litla Hrauni og fangar séu jákvæðir fyrir flokkun og endurvinnslu og allir ætli að gera sitt best til að vinna á jákvæðan hátt fyrir umhverfið.
„Ég vona bara á næstu kvikmyndahátíð á Eyrarbakka og við verðum aftur þátttakendur á þá getum við bara farið yfir það hvaða markmiðum verðum búin að ná þá því við erum bara farin af stað hér og nú“, segir Halldór Valur.
