Erlent

Renzi stofnar nýjan flokk

Atli Ísleifsson skrifar
Matteo Renzi gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu á árunum 2014 til 2016.
Matteo Renzi gegndi embætti forsætisráðherra Ítalíu á árunum 2014 til 2016. Getty
Matteo Renzi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, hyggst stofna nýjan stjórnmálaflokk síðar í vikunni og þar með segja skilið við Lýðræðisflokkinn sem nýverið myndaði ríkisstjórn með Fimm stjörnu hreyfingunni.

Renzi kveðst þó áfram styðja ríkisstjórnina og að með þessu muni stjórnin fá breiðari skírskotun. Flokkurinn ætli sér að verða öflugur miðjuflokkur.

Renzi var formaður Lýðræðisflokksins frá 2013 til 2018 og forsætisráðherra á árunum 2014 til 2016. Hann átti ríkan þátt í að koma saman ríkisstjórn Lýðræðisflokksins og Fimm stjörnu hreyfingarinnar eftir að Bandalagið, undir stjórn þáverandi innanríkisráðherra Matteo Salvini, sagði skilið við ríkisstjórn þess og Fimm stjörnu hreyfingarinnar með því að lýsa yfir vantrausti á Guiseppe Conte forsætisráðherra í þeirri von að boðað yrði til kosninga.

Conte gegnir áfram embætti forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn Lýðræðisflokksins og Fimm stjörnu hreyfingarinnar.

Renzi, sem nú á sæti í öldungadeild ítalska þingsins, hefur átt í stormasömu sambandi við marga innan Lýðræðisflokksins, sér í lagi þá á vinstri væng flokksins. Þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að Renzi hafi stefnt á stofnun nýs flokks.


Tengdar fréttir

Vill koma á ró í ítölskum stjórnmálum

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, segist vona að breið stjórn Fimmstjörnu hreyfingarinnar og Lýðræðisflokksins komi á ró í þjóðfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×