Þróunarmiðstöðinni hefur tekist að draga úr ávísun sýklalyfja um þrjátíu prósent og er stefnt að því að gera slíkt hið sama við sterk verkjalyf.
Miðstöðin leiðir þróun allra heilsugæslu á landinu og er ætlað að gera heilsugæsluna að fyrstu viðkomu sjúklinga. Eins árs afmæli miðstöðvarinnar var fagnað í morgun þar sem Emil Sigurðsson, forstöðumaður Þróunarmiðstöðvarinnar, fór yfir þann ávinning sem hefur náðst á síðastliðnu ári.
Meðal annars hefur tekist að draga úr ávísunum breiðvirkra sýklalyfja hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um 20 til 30 prósent. Nota Íslendingar nær tvöfalt meira en Svíar.

Næsta verkefni er að sporna við ofnotkun sterkra verkjalyfja sem innihalda ópíóða. Frá árinu 2008 til 2017 jókst ávísun ópíóða um 30 prósent hér á landi.


Emil segir margar ástæður geta verið fyrir því hvers vegna svo miklu er ávísað hér á landi.
„Ég hugsa að það sé skortur af úrræðum hreinlega. Það er ekki augljóst hvað á að gera þegar fólk er hrjáð af verkjum en notkun ópíóða á eingöngu að vera í skamman tíma, ekki langan tíma.“