Handbolti

Ljónin höfðu betur í Íslendingaslag, átta íslensk mörk hjá Kristianstad og sigurganga Viggó heldur áfram

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arnór Þór gerði fjögur mörk í kvöld.
Arnór Þór gerði fjögur mörk í kvöld. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen vann sex marka sigur á Bergrischer í Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Ljónin voru fjórum mörkum yfir í hálfleik og sigurinn var aldrei í hættu. Lokatölur 30-24 en staðan í hálfleik var 16-12.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði fjögur mörk fyrir Bergrischer en tvö af þeim komu af vítalínunni. Ragnar Jóhannsson skoraði ekki mark. Bergrischer með þrjú stig af sex mögulegum.

Alexander Petersson komst ekki á blað hjá Ljónunum sem eru með fjögur stig eftir fyrstu þrjá leikina.

Gísli Þorgeir Kristjánsson náði ekki að skora í þriggja marka sigri Kiel, 30-27, á Ludwigshafen. Markahæstur hjá Kiel var Niclas Ekberg með sjö mörk en Kiel hefur unnið fyrstu tvo leiki sína.

Viggó Kristjánsson gerði tvö mörk fyrir Leipzig sem vann þriggja marka sigur á Stuttgart á heimavelli, 31-28, eftir að hafa verið 14-13 yfir í hálfleik.

Leipzig er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir.

Silfurliðið í Svíþjóð, Kristianstad, vann sjö marka sigur á Lugi, 31-24, í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Kristianstad var 13-10 undir í hálfleik en spýtti heldur betur í lófana í síðari hálfleik. Ólafur Guðmundsson gerði fimm mörk og Teitur Örn Einarsson þrjú.

Árni Bragi Eyjólfsson komst ekki á blað og Ólafur Gústafsson var ekki í hóp KIF Kolding sem tapaði 35-30 fyrir Árósum í dönsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×