Sigvaldi Guðjónsson og félagar í Elverum byrja norsku úrvalsdeildina á sigri en þeir unnu eins marks sigur á Halden, 28-27.
Norsku meistararnir í Elverum voru á útivelli en jafnt var á öllum tölum í hálfleik, 12-12. Eftir dramatískar lokamínútur stóð Elverum svo uppi með stigin tvö.
Sigvaldi Guðjónsson skoraði þrjú mörk úr þremur skotum samkvæmt vef norska sambandsins.
Rut Jónsdóttir skoraði tvö mörk úr þremur skotum er dönsku meistararnir í Team Esbjerg unnu sex marka sigur á Nykobing Falster, 27-21.
Sigurinn var aldrei í hættu. Meistararnir leiddu með sex mörkum í hálfleik en auk markanna gaf Rut eina stoðsendingu.
Team Esbjerg heldur því uppteknum hætti frá því á síðustu leiktíð en meistararnir eru með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.
