Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands segir að búast megi við nokkuð hvassri sunnanátt í áðurnefndum landshlutum í dag, með mikilli rigningu. Hiti verður 10 til 18 stig á landinu, hlýjast um landið norðaustanvert. Síðdegis dregur svo úr vindi og rigningu vestantil á landinu. Eins og áður segir eru gular viðvaranir í gildi á Suður- og Vesturlandi, nánar tiltekið á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði og Suðausturlandi. Á vef Veðurstofunnar segir að búast megi við vatnavöxtum í ám og lækjum.
Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón. Á svæðum þar sem úrkoma verður mest má jafnframt búast við skriðum og grjóthruni í brattlendi.
Á morgun verður sunnan- og suðvestanátt, yfirleitt 5-10 m/s. Skúrir og milt veður en styttir upp austanlands. Og á mánudag er útlit fyrir fremur hæga breytilega átt með stöku skúrum, en rigningu um tíma á Vestfjörðum.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:Fremur hæg breytileg átt og víða dálitlar skúrir, einkum síðdegis. Hiti 6 til 12 stig.
Á þriðjudag:
Austan 5-13, en 13-18 syðst. Víða rigning, einkum sunnanlands, en úrkomulítið um landið norðvestanvert. Hiti breytist lítið.
Á miðvikudag:
Norðan og norðaustan 5-10 m/s og rigning eða súld norðan- og austantil á landinu og hiti 3 til 8 stig, en skýjað með köflum og yfirleitt þurrt um landið suðvestanvert og hiti 7 til 13 stig.
Á fimmtudag:
Fremur hæg breytileg átt og víða rigning. Heldur kólnandi veður.
Á föstudag:
Vestlæg átt, skúrir á víð og dreif og fremur svalt í veðri.