Veðurstofa Rússlands segir að geislun í borginni Severodvinsk hafi aukist allt sextánfalt eftir sprengingu á tilraunasvæði hersins á fimmtudag, þvert á yfirlýsingar varnarmálaráðuneytisins um að geislun hafi verið óbreytt þar. Sprengingin varð í litlum kjarnaofni yfir Hvítahafi.
Fimm vísindamenn rússnesku kjarnorkustofnunarinnar fórust í sprengingunni á fimmtudag. Upphaflega sögðu yfirvöld í Severodvinsk, í nágrenni við heræfingarsvæðið, að geilsun þar hefði aukist tímabundið í kjölfarið. Sú tilkynning hvarf skyndilega af netinu í síðustu viku. Varnarmálaráðuneytið fullyrti að engin breyting hefði orðið á geislun.
Nú segir ríkisveðurstofa Rússlands að geislun í Severodvinsk hafi mælst fjórfalt til sextánfalt meiri en vanalega eftir sprenginguna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Upphaflega sagði varnarmálaráðuneytið að sprengingin hefði orðið við tilraun með eldflaugarhreyfil með fljótandi eldsneyti. Kjarnorkustofnunin sagði á sunnudag að sprengingin hefði orðið í litlum kjarnaofni.
Bandarísku leyniþjónustuna grunar að á ferðinni hafi verið tilraunir með nýja kjarnaknúna stýriflaug sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti stærði sig af fyrr á þessu ári.
Geislun margfaldaðist eftir sprenginguna í Rússlandi

Tengdar fréttir

Óttast að dularfullar sprengingar tengist nýjum kjarnavopnum
Kjarnorkustofnun Rússlands viðurkenndi í fyrsta skipti í gær að sprenging hefði orðið í litlum kjarnaofni á fimmtudag. Sjö fórust.

Geislamengunar vart eftir mannskætt eldflaugarslys
Eldflaugarhreyfill sprakk á skotsvæði rússneska sjóhersins með þeim afleiðingum að tveir fórust og sex slösuðust.

Fimm nú sagðir látnir í eldflaugarslysi í Rússlandi
Engin skýring hefur verið gefin á geislavirkni sem mældist eftir sprenginguna og tilkynning um aukna geislun hvarf skyndilega af netinu í dag.