Skoðun

Hinsegin skjöl?

Svanhildur Bogadóttir skrifar
Borgarskjalasafn Reykjavíkur er stolt af því að hafa fengið til varðveislu skjalasafn Samtakanna ´78 og tengdra samtaka. Hluti safnsins er opinn öllum en takmarkaður aðgangur er að viðkvæmum skjölum. Eftirsótt er að fá aðgang að safni Samtakanna til rannsókna því sívaxandi áhugi er á þessari mikilvægu sögu.

Söfnun heimilda um réttindabaráttu hinsegin fólks og ekki síður heimildir um líf þeirra er mikilvæg fyrir komandi kynslóðir. Hinsegin saga er hluti af sögu og menningu Íslands og því nauðsynlegt að varðveita, fræðast um og miðla þeirri sögu.

En saga hinsegin fólks er ekki einskorðuð við skjöl Samtakanna ´78 og yrði harla einhæf ef eingöngu yrði stuðst við þau skjöl. Því miður hefur Borgarskjalasafn, ekki frekar en önnur opinber skjalasöfn, fengið mikið af skjölum hinsegin einstaklinga til varðveislu. Skjöl þeirra eru mikilvæg til að skrá og varðveita sögu þeirra sem einstaklinga og hóps fyrir framtíðina. Það væri mikill missir ef skjöl og saga hinsegin einstaklinga glötuðust.

Í tilefni Hinsegin daga óskar Borgarskjalasafn Reykjavíkur eftir að fá til varðveislu skjöl, útgáfuefni eða annað efni sem segir, lýsir eða tengist sögu hinsegin fólks eða réttindabaráttu þeirra á einn eða annan hátt, til dæmis sendibréf, dagbækur, frásagnir, ljósmyndir, úrklippur og póstkort.

Skjölin sem afhent eru geta verið allt frá einu bréfi til stærri safna. Þau verða skráð af starfsmönnum Borgarskjalasafns og varðveitt í skjalageymslu safnsins. Hægt er að setja takmarkanir á aðgang, til dæmis þannig að enginn megi skoða skjölin í ákveðinn tíma eða án leyfis.

Þeir sem eiga eða vita um áhugaverð skjöl eru hvattir til að hafa samband við starfsmenn Borgarskjalasafns.

Til að fá nánari upplýsingar má hafa samband  við safnið í síma 4116060, senda póst á netfangið borgarskjalasafn@reykjavik.is eða koma á safnið frá mánudegi til föstudags milli kl. 13 og 16 í Tryggvagötu 15, 3. hæð, Reykjavík.

Höfundur er borgarskjalavörður




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×