Hlutfallslega fleiri ungmenni hverfa frá námi á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt nýrri skýrslu norrænu fræðastofnunarinnar sem sagt var frá í fréttum í gær. Þá eru hlutfallslega fleiri ungmenni hvorki í vinnu eða námi í dreifbýli en þéttbýlinu. Loks eru strákar og ungmenni að erlendum uppruna líklegri til að tilheyra báðum þessum hópum en aðrir. Fram kom að ríflega þriðjungur ungmenna hverfur frá námi á landsbyggðinni sem er mun hærra hlutfall en í höfuðborginni. Sviðsstjóri hjá Menntamálastofnun sagði enn fremur að þetta samræmdist þeim rannsóknum sem stofnunin hefði áður séð.
Guðjón Bragason sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs hjá sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að mögulega megi rekja ástæður fyrir þessum mun til þess að hluti menntastofnana á landsbyggðinni hafi ekki aðkomu að stoðþjónustu eins og fræðsluskrifstofu, sálfræðingum eða öðrum sérfræðingum.
„Fyrir yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaga árið 1996 voru reknar skólaskrifstofur á vegum ríkisins í öllum landshlutum. Eftir yfirfærsluna er ákveðið tómarúm í kerfinu og spurning hvernig hægt að fylla það. aukin samvinna sveitarfélaga í skólamálum er klárlega eitthvað sem vert væri að skoða í þessu samhengi,“ segir Guðjón Bragason.
Þá skorti einnig upp á stoðþjónustu í framhaldsskólum.
„Heilt yfir er stoðþjónusta í framhaldsskólum er heilt yfir ekki nægilega öflug og við höfum lengi bent á það að það eru í raun gerðar meiri kröfur til sveitarfélaga heldur til framhaldsskólanna sem ríkið ber náttúrulega ábyrgð á það gildir ekki bara á landsbyggðinni.“
Hann segir einnig að verið sé að vinna að lausnum fyrir drengi í skólakerfinu eins og að auka lesefni sem þeir hafi áhuga á.
„Kannski [er] lögð meiri áhersla á að strákum gangi vel í íþróttum en skóla og þá beinist kastljósið líka að foreldrum.“
Síðastliðinn vetur var gerð úttekt á menntastefnunni og er nú verið að ákveða næstu skref í menntamálaráðuneytinu en Samband íslenskra sveitarfélaga og kennarasambandið koma einnig að því. Guðjón býst við að niðurstöður úr þeirri vinnu sé að vænta í vetur.