Tveir fluttir með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum eftir líkamsárásir
Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Kvöldið gekk vel samkvæmt lögreglunni í Vestmannaeyjum en mikill erill var undir morgun.Vísir
Tveir voru fluttir með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum eftir alvarlegar líkamsárásir í nótt. Alls eru fjórar líkamsárásir til rannsóknar hjá lögreglunni eftir nóttina, þar af tvær alvarlegar. Þrír eru í haldi vegna rannsóknar málanna.
Alls komu upp tíu fíkniefnamál í Eyjum í nótt, þar af eitt þar sem grunur er um sölu á fíkniefnum. Níu af þeim teljast svokölluð neyslumál.
Samkvæmt Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum var kvöldið rólegt en erillinn hófst undir morgun.
Á föstudagskvöld komu einnig upp tíu fíkniefnamál og sex gistu í fangaklefa eftir föstudagsnóttina.