Írakski íslamistinn Mulla Krekar hefur verið dæmdur í tólf ára fangelsi á Ítalíu fyrir skipulag á hryðjuverkum. Dómurinn féll fyrir áfrýjunardómstól í ítölsku borginni Bolzano og var Krekar dæmdur án þess að hafa nokkurn tíma farið fyrir dómstólinn. Fréttastofa NRK greinir frá þessu.
Krekar á sér langa sögu í Noregi þar sem hann hefur áður verið dæmdur í fangelsi fyrir að hafa hótað embættismönnum þar í landi lífláti og síðar fyrir að hafa hyllt árásarmennina sem réðust á ritstjórnarskrifstofur Charlie Hebdo í París.
Brynjar Meling, sem var lögmaður Krekar í máli hans fyrir norskum dómstólum, er mjög gagnrýninn á dómskerfið á Ítalíu og segir að Krekar hafi aldrei fengið að tala máli sínu. Einnig hafi Krekar verið úthlutað lögmanni sem hafi aldrei haft samband við umbjóðanda sinn.
Norski lögmaðurinn segir að Krekar hafi ekki heldur fengið tækifæri til að leggja fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings. Ítalski dómstólinn féllst ekki á að hann fengi að flytja mál sitt með hjálp fjarfundarbúnaðar.
Krekar kom frá Írak til Noregs sem flóttamaður árið 1991. Til stóð að honum yrði vísað úr landi árið 2003 og aftur 2007, þar sem hann var talinn vera ógn við þjóðaröryggi, en yfirvöld í Noregi töldu sig ekki geta tryggt að hann myndi ekki hljóta dauðadóm í heimalandi sínu.
Lögregla á Ítalíu sakaði Krekar, sem heitir Najmuddin Faraj Ahmad réttu nafni, um að hafa skipulagt hryðjuverk í Noregi og fleiri ríkjum álfunnar og óskuðu ítölsk yfirvöld eftir því að hann yrði framseldur frá Noregi.
Krekar dæmdur í tólf ára fangelsi án þess að koma fyrir dóm

Tengdar fréttir

Mulla Krekar handtekinn í Noregi
Norska öryggislögreglan vill að hann verði framseldur frá Noregi til Ítalíu.

Hugðust sprengja breska sendiráðið í Ósló
Lögregla víðs vegar um álfuna hefur handtekið sautján manns í samhæfðum aðgerðum vegna gruns um að þeir tengist alþjóðlegu hryðjuverkaneti.

Brottvísun til Íraks rædd
Íslamistinn múlla Krekar hefur verið handtekinn eina ferðina enn í Noregi fyrir hótanir. Danski skopteiknarinn Westergaard býðst til að hitta hann að máli.

Skæruliði hótar Norðmönnum
Mulla Krekar, kúrdískur skæruliðaforingi, sem George Bush, forseti Bandaríkjanna, sakar um að vera tengiliður við Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Al kæda, á á hættu að verða rekinn úr landi í Noregi og sendur til Íraks, en hann hefur dvalið sem flóttamaður í Noregi undanfarin ár.