Mannréttindadómstóllinn tók fyrir Exeter-málið svokallaða, sem fór í gegn um íslenska réttarkerfið fyrir nokkrum árum. Því lauk í Hæstarétti með því að Styrmir var dæmdur til eins árs fangelsisvistar. Nú hefur MDE hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að Styrmir hafi ekki hlotið réttláta málsmeðferð í Hæstarétti. Telst því íslenska ríkið brotlegt gagnvart honum.
Styrmir Þór var árið 2013 dæmdur til eins árs fangelsisvistar í málinu en Hæstiréttur sneri þá við nokkurra mánaða gömlum dómi Héraðsdóms í málinu. Íslenska ríkinu er nú gert að greiða Styrmi 7500 evrur í skaðabætur sökum brotsins. Sjálfur hafði Styrmir farið fram á miskabætur upp á 40 þúsund evrur.
Styrmir segir í færslu sinni að tilfinningarnar sem vakni á stundu sem þeirri þegar úrskurður MDE var ljós séu blendnar.
„Bæði gleði en á sama tíma reiði. Gleði yfir réttlætinu en reiði yfir því að einhverjir dómarar séu svo ákafir að dæma einhvern að þeir séu tilbúnir að fórna almennum mannréttindum fólks um réttláta málsmeðferð og einnig fara á svig við sjálfsagt réttarfar.“
Segist Styrmir vilja tileinka sigurinn börnunum sínum, sem hann segir hafa þurft að upplifa „ótrúlega hegðun af hálfu ýmissa aðila“ á meðan á málinu stóð.
Þá þakkar Styrmir fjölskyldu sinni fyrir að hafa staðið með sér í gegn um þann tíma sem málið tók, sem Styrmir segir hafa verið erfiðan. Segir hann stuðninginn hafa verið mikilvægan þegar honum hafi fundist hann standa einn í baráttu sinni.
„Í lokin langar mig að segja að með dómi Mannréttindadómstólsins í dag hef ég öðlast öll þau vopn sem ég þarf til að fá réttlætinu fullnægt og fá þennan ólöglega dóm ógildan. Ég mun að sjálfsögðu leita allra leiða til að fá réttlætinu fullnægt,“ skrifar Styrmir að lokum.