Fótbolti

Juventus staðfestir loks kaupin á De Ligt

Arnar Geir Halldórsson skrifar
De Ligt var vel tekið við komuna til Torinó
De Ligt var vel tekið við komuna til Torinó
Hollenski varnarmaðurinn Matthijs de Ligt er genginn í raðir ítalska stórveldisins Juventus en ítalska félagið staðfesti kaupin á heimasíðu sinni í morgun.

Félagaskiptin hafa verið yfirvofandi í allt sumar en de Ligt gekkst undir læknisskoðun í Torinó í gær.

Í yfirlýsingu Juventus er kaupverðið gefið upp en Juve pungar út 75 milljónum evra auk þess sem ákvæði er um árangurstengdar greiðslur upp á 10,5 milljónir evra.

Þessi 19 ára gamli miðvörður gerir fimm ára samning við Juventus en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann leikið 117 leiki fyrir aðallið Ajax.

De Ligt verður fimmti Hollendingurinn til að leika fyrir ítalska stórveldið og fetar þar með í fótspor Edwin van der Sar, Edgar Davids, Eljero Elia og Ouasim Bouy.



Juventus hefur bætt nokkrum leikmönnum í gríðarsterkan leikmannahóp sinn í sumar en helsta ber að nefna Adrien Rabiot frá PSG og Aaron Ramsey frá Arsenal. 

Þá hefur liðið ekki selt neina leikmenn sem voru í lykilhlutverki frá sér en reynsluboltinn Andrea Barzagli lagði þó skóna á hilluna að loknu síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×