Dauði Óscars Martínez og dóttur hans í ánni Río Bravo á landamærunum í síðustu viku vakti heimsathygli vegna myndar sem birtist af líkum þeirra fljótandi innan um rusl við bakka árinnar. Þau höfðu reynt að komast syndandi yfir til Bandaríkjanna þar sem Martínez og eiginkona hans ætluðu að leita hælis.
Örlög feðginanna vakti upp umræður um harðneskjulega innflytjendastefnu ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Undir hans stjórn hafa bandarísk yfirvöld reynt að takmarka rétt fólks til að leita hælis í Bandaríkjunum. Mannréttindasamtök hafa varað við því að það gæti þvingað væntanlega hælisleitendur til að reyna hættulegar leiðir til að komast inn í landið.
Bukele forseti sem tók við embætti í síðustu viku, tekur undir fordæmingu á meðferð förufólks í Bandaríkjunum og Mexíkó en segir að þegar allt komi til alls liggi ábyrgðin á dauða feðginanna hjá stjórnvöldum í El Salvador.
„Við getum kennt hvaða landi sem er um en hvað með okkar eigin ábyrgð? Hvaða land flúðu þau? Flúðu þau Bandaríkin? Þau flúðu El Salvador, þau flúðu okkar land. Það var okkur að kenna,“ segir Bukele í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC.
Þurfa að bæta aðstæður svo enginn þurfi að flýja
Ástæðan fyrir því að fólk eins og Martínez flýi land sé atvinnuleysi, glæpagengi og skortur á aðgengi að vatni, menntun og heilbrigðisþjónustu.„Fólk flýr ekki heimili sín vegna þess að það vill það, fólk flýr heimili sín vegna þess að því finnst að það þurfi þess,“ segir forsetinn.
Til að stemma stigu við því að fólk flýi land þurfi El Salvador að bæta ástandið heima fyrir.
„Ég held að það sé réttur að flytjast búferlaflutningum en það ætti að vera valkostur, ekki afarkostir. Í augnablikinu er það afarkostir fyrir margt fólk,“ segir Bukele.