Það verður vætusamt sunnan og vestan til á landinu í dag og fremur milt í veðri að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Síðdegis mun svo draga úr úrkomu í þessum landshlutum en þá fer að rigna norðan og austan lands.
Á morgun fer síðan dálítil lægð austur yfir landið sunnanvert. Má því búast við norðaustan- og austanáttum á landinu með skúrum í flestum landshlutum.
Síðdegis á morgun er svo spáð kröftugum skúradembum á suðvestanverðu landinu og einnig á hálendinu þar sem eru líkur á stöku hagléljum eða eldingum í óstöðugu lofti sem fylgir miðju lægðarinnar.
Veðurhorfur á landinu:
Suðaustan 5-13 og rigningu eða súld sunnan og vestan lands, en hægari breytileg átt og bjart að mestu um landið norðaustanvert.
Snýst í hægari suðlæga átt og dregur úr úrkomu eftir hádegi, fyrst suðvestan til, en þykknar upp með dálítilli rigningu norðan- og austanlands undir kvöld. Austan og norðaustan 5-13 á morgun og víða skúrir, einkum síðdegis. Hiti 10 til 18 stig í dag, hlýjast norðaustanlands, en hiti 9 til 16 stig á morgun.
Á föstudag:
Norðlæg átt 5-10 m/s. Skýjað en úrkomulítið norðan- og austanlands, en annars skýjað með köflum og stöku síðdegisskúrir og hiti 8 til 13 stig.
Á laugardag:
Norðan 5-13 m/s, hvassast norðaustan til. Skýjað norðan- og austanlands og úrkomulítið, en bjart um sunnanvert landið. Hiti 5 til 10 stig norðaustan til, en 14 til 19 stig á Suður- og Vesturlandi.
Á sunnudag:
Norðan 5-13 m/s, hvassast norðvestan til. Rigning um norðan- og austanvert landið, en skýjað með köflum og þurrt sunnan til. Hiti breytist lítið.
