Þann 18. júlí næstkomandi mun Sena Live opna Ed Sheeran-búð í Kringlunni. Búðin opnar í tilefni tveggja stórtónleika söngvarans sem fara fram 10. og 11. ágúst á Laugardalsvelli. Munu tónleikagestir geta nálgast miðana sína í búðinni og keypt Ed Sheeran-varning.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag þar sem rætt er við Ísleif B. Þórhallsson, tónleikahaldara hjá Senu Live.
„Við sögðum þegar miðasalan fór af stað að fólk myndi fá pappírsmiðana sína þremur vikum fyrir tónleikana. Til að geta annað öllum þessum fjölda þurftum við einhverja miðstöð og úr varð að við munum opna verslun í Kringlunni fimmtudaginn 18. júlí,“ segir Ísleifur í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir að ekki verði um bás að ræða heldur alvöru verslun. Þegar nær dregur verða svo skemmtiatriði í versluninni, óvæntar uppákomur og „eitthvert stuð“ eins og Ísleifur orðar það.
Ísleifur segir að fljótlega verði send út tilkynning á alla kaupendur með ítarlegum upplýsingum um allt varðandi miðaafhendinguna og allt fyrirkomulag varðandi verslunina og miðamál.
