Erlent

Ólympíusundkappi bjargaði manni frá drukknun

Filippo Magnini hefur unnið bronzverðlaun á Ólympíuleikunum og tvenn gullverðlaun á heimsmeistaramóti í sundi.
Filippo Magnini hefur unnið bronzverðlaun á Ólympíuleikunum og tvenn gullverðlaun á heimsmeistaramóti í sundi. Getty/ Pier Marco Tacca
Ítalski Ólympíusundkappinn Filippo Magnini bjargaði lífi manns sem var að drukkna við strendur eyjunnar Sardiníu í gær. BBC greinir frá þessu.

Maðurinn sem kappinn bjargaði heitir Andrea Benedetto og hafði hann gifst unnusta sínum á eyjunni tveimur dögum áður.

Nýgifta parið var að sóla sig á vindsæng í hafinu utan við Cala Sinzias ströndina austur af borginni Cagliari á Sardiníu þegar kröftug vindkviða feykti vindsænginni í loftið með þeim afleiðingum að Benedetto steyptist á kaf í vatnið sem reyndist kaldara en hann bjóst við og gat hann hvorki hreyft legg né lið.

Vinir hans hrópuðu á hjálp, þá skarst Magnini í leikinn og hélt höfði Bendetto á yfirborðinu þangað til frekari aðstoð barst. Sundkappinn reyndist sneggri en strandverðirnir sem komu stuttu síðar á bát og ferjuðu Bendetto í land.

Magnini var á ströndinni með kærustunni, Giorgiu Palmas, sem er þekkt sjónvarpsstjarna og fyrirsæta á Ítalíu. Hann sagði í samtali við Ítalska íþróttafréttamiðilinn, Corriere dello Sport, að maðurinn hafi verið mjög hræddur og að hann hafi gleypt nokkurn sjó.

Benedetto var færður á spítala og hafði hann ekki hugmynd um að heimsfrægur sundkappi hafði bjargað lífi hans fyrr en nokkrum klukkustundum síðar.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×