Hópur bandarískra umhverfissinna gerði fyrr í mánuðinum út bát frá Honolulu í Hawaii og hófust handa við að leggja sitt að mörkum með því að hreinsa upp hluta Kyrrahafsins. AP greinir frá.
Haldið var út á 43 metra langri seglskútu útbúinni með krana og stefnan sett á svæði sem kallað er Kyrrahafsruslabletturinn eða „the Great Pacific Garbage Patch“. Þar hófust sjálfboðaliðarnir handa og veiddu aðallega upp úr hafinu fiskinet sem skilin höfðu verið eftir.
Fjörutíu tonn af fiskinetum og tvö tonn af öðru plastrusli fundust á svæðinu og var siglt með „fenginn“ til hafnar í Honolulu en leiðangurinn tók 25 daga og lauk 18.júní síðastliðinn.
„Árangur okkar ætti að ryðja veginn fyrr enn viðameiri hreinsunaraðgerðir í Kyrrahafinu,“ sagði Mary Crowley stofnandi samtakanna, Ocean Voyages, sem stóð fyrir ferðinni.
Veiddu 40 tonn af netum úr Kyrrahafinu
Andri Eysteinsson skrifar
