Slökkvilið Borgarbyggðar æfir í kvöld útkall vegna viðbragða við gróðureldum. Vegna mikilla þurrka hefur verið lýst yfir óvissustigi almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Vesturlandi.
Allt tiltækt slökkvilið tekur þátt í æfingunni. Um 50 manns verða ræstir út frá fjórum stöðvum slökkviliðsins; í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og á Bifröst.
Þórður Sigurðsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri, segir í samtali við fréttastofu að æfingin hefjist klukkan 19.30, hún nái hámarki í Skorradal um klukkustund síðar.
Sjá einnig: Gróðureldar verði ein sviðsmynd almannavarna
Vegna hættu á gróðureldum í sumarhúsabyggðinni í Skorradal verður bakvakt hjá slökkviliði Borgarbyggðar um helgina.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni verður þyrlan TF-LÍF ekki notuð á æfingunni í kvöld en ef til útkalls kæmi er þyrlan og svokölluð vatnsskjóla til taks.
