Endurspeglun fjölbreytileika
Forsenda þátttöku var að myndlistarmennirnir búi eða starfi á Norðurlandi eða hafi tengingu við svæðið. „Við erum ekki að skilgreina ítarlega hvað er að vera norðlenskur listamaður. Það nægir að listamaðurinn sé fæddur á Norðurlandi en búi annars staðar, það er nóg að hafa verið í námi á Norðurlandi eða búið þar einhvern tíma. Fólk skilgreinir sig sjálft sem norðlenska listamenn. Þetta árið búa um tveir þriðju þátttakenda fyrir norðan.“Hlynur segir mikla fjölbreytni einkenna sýninguna. „Þarna eiga allir miðlar sinn fulltrúa: textíll, málverk, skúlptúrar, innsetningar, ljósmyndir, teikningar og svo framvegis. Verkin endurspegla fjölbreytileikann í því sem er að gerast hjá norðlenskum listamönnum. Ég er stundum spurður hvort norðlensk list sé eitthvað öðruvísi en sunnlensk list eða höfuðborgarlist. Mitt svar er að það sé mjög erfitt að skilgreina það á sama hátt og erfitt er að skilgreina íslenska list,“ segir Hlynur.
Sýningin stendur fram í september.

Tólf mismunandi rými
Ekki er langt síðan miklar endurbætur voru gerðar á Listasafninu á Akureyri og það stækkað verulega.„Við erum mjög ánægð með þessa stækkun á safninu sem var löngu tímabær og ánægðust erum við með viðbrögðin sem hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Við erum núna með 12 mismunandi rými þannig að við getum verið með 5-7 sýningar í gangi í einu,“ segir Hlynur.