Erlent

Forsætisráðherra Ítalíu hótar afsögn

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu.
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu. Fréttablaðið/EPA
Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hótaði afsögn sinni í gær ef samstarfsflokkar hans tveir, Norðurbandalagið og Fimm stjörnu hreyfingin, hættu ekki endalausum deilum sín í milli. Ef flokkarnir létu ekki af þessari hegðun yrði boðað til nýrra kosninga.

Conte boðaði til fréttamannafundar þar sem hann setti samstarfsflokknum þessa úrslitakosti. Matteo Salvini, leiðtogi Norðurbandalagsins, og Luigi Di Maio, leiðtogi Fimm stjörnu hreyfingarinnar, brugðust hratt við og lýstu yfir fullum stuðningi við ríkisstjórnina. Báðir neituðu þeir þó að taka á sig sökina á ástandinu.

Flokkarnir tveir hafa meðal annars deilt um innviðauppbyggingu, innflytjendamál og jafnvel hverjum ætti að kenna um nýlegt slys í Feneyjahöfn þegar skemmtiferðaskipi hlekktist þar á.

Deilurnar mögnuðust eftir Evrópuþingskosningarnar í síðasta mánuði. Þar fékk Norðurbandalagið 34 prósent atkvæða og tók fram úr Fimm stjörnu bandalaginu.

Ríkisstjórnin glímir við efnahagserfiðleika og gæti átt yfir höfði sér viðurlög frá ESB vegna brota á fjármálareglum sambandsins. Forsætisráðherrann segir að slíkt yrði mjög skaðlegt en hann telur að breyta þurfi reglum ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×