Innlent

Þyrla Land­helgis­gæslunnar kölluð út vegna slasaðs ein­stak­lings í Ör­æfa­jökli

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
TF-EIR var kölluð út til að aðstoða við björgun slasaðs einstaklings í Öræfajökli.
TF-EIR var kölluð út til að aðstoða við björgun slasaðs einstaklings í Öræfajökli. JÓN PÁLL ÁSGEIRSSON
Á fjórða tímanum í dag óskaði lögreglan á Suðurlandi eftir aðstoð þyrlu landhelgisgæslunnar vegna slasaðs einstaklings sem var fastur í um 900 metra hæð ofan Sandfellsheiðar í suðvesturverðum Öræfajökli.

Björgunarsveitir frá Hornafirði og Öræfum voru þegar á leið á vettvang en torfært var að koma hinum slasaða til byggða. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-EIR fór frá Reykjavíkurflugvelli þegar klukkuna vantaði sjö mínútur í fjögur.

TF-EIR komst á vettvang klukkan fimm og komu viðbragðsaðilar sjúklingnum um borð í þyrluna sem skilaði honum til viðbragðsaðila í Freysnesi og hélt þyrlan þá til Reykjavíkur.  

Þetta var fyrsta útkall þyrlunnar TF-EIR og segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að hún hafi nýst vel í verkefnið þar sem hún flygi 20 hnútum hraðar en eldri þyrla gæslunnar, TF-LIF og kæmi því vel að notum við lengri ferðir eins og þessa. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×