Margrét ræddi um stöðuna í ferðaþjónustunni eins og hún blasir við henni. Hún var gestur í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni. Í kjölfar gjaldþrots flugfélagsins WOW air og almenns samdráttar í ferðaþjónustunni hefur borið á svartsýni hjá hinum ýmsu ferðaþjónustuaðilum og margir sjá fram á lakari hag.
Það á alls ekki við um Margréti. Hún segist raunar ekki kannast við aðþrengda stöðu hjá kollegum sínum á Flúðum.
Á Flúðum er mikið um að vera og margt áhugavert að sjá á svæðinu. Margrét segir að flúðasveppirnir séu mikið aðdráttarafl, Gamla laugin á Flúðum sé vinsæl og Friðheimar hafi slegið í gegn hjá ferðamönnum.

Margrét segist þó greina ákveðna breytingu á þeim hópum sem sækja Ísland heim. Þannig komi í auknum mæli gestir frá Asíu og Bandaríkjunum.
Hún hefur starfað innan hótelbransans frá árinu 1998 og hefur því mikla reynslu í ferðaþjónustu. Á þessum árum hafi skipst á skin og skúrir og það sé ekkert nema eðlilegt. „Þetta er bara búið að vera upp og niður, alltaf en eins og ég segi núna í ár erum við bara kát.“
Það sé þó viðbúið að það komi einhver samdráttur í ljósi gífurlegs framboðs á gistirými. „Það má náttúrulega búast við því, er það ekki? Það er búið að vera rosa framboð. Þú keyrir ekki fram hjá bæ hérna hringinn öðruvísi en að það sé gisting og Airbnb.“