Árlegur baðtúr hestamannafélagsins Sleipnis á Selfossi var í gær en þá var riðið í fjöruna á Stokkseyri þar sem hestamenn á Eyrarbakka og Stokkseyri hittu Selfyssingana. Það er alltaf spenna í baðtúrnum, hverjir þora á hestunum sínum í sjóinn og hvernig hestarnir haga sér í sjónum.
„Við förum alltaf hérna einn laugardag á vorin og hetjurnar sundríða, við hinir horfum á. Það var talað um það þegar menn voru alltaf með hesta á básum, þá voru þeir stundum með flórlæri og þeir komu hingað til að skola lærin á þeim en núna er þeir með svo mikinn spæni að það er engin flór lengur“, segir Magnús Ólafsson, formaður Sleipinis.

„Þetta gekk bara ljómandi vel, hann var ekki alveg til í að fara þarna út í fyrst, ég þurfti að teyma hann út á tangann en svo tók hann bara vel í þetta“.
En er erfitt og flókið að sundríða?
„Nei, maður gerir í rauninni ekki neitt, hesturinn sér um þetta, það er bara þannig, maður heldur bara í faxið og fer með“, segir Hannes.

„Heyrðu, þetta var dásemd, þetta er rosa skemmtilegt og gott fyrir hestana. Þetta er ekkert mál, en þú verður samt að kunna hvað þú ert að gera, en bara eins og ég segi, allir ættir að prófa þetta“, segir Elín Rós Hölludóttir, sem var á hestinum Ótta.

