Skoðun

Glópagull og gagnaver

Tómas Guðbjartsson skrifar
Um 90% af þeirri raforku sem gagnaver á Íslandi nota er ráðstafað í vinnslu rafmyntar, sérstaklega Bitcoin, sem með réttu má kalla glópagull. Bitcoin-námugröftur er þegar orðinn risaiðnaður á Íslandi en í ár má gera ráð fyrir að það fari 110 MW af raforku til gagnavera, sem er á við tvær áætlaðar Hvalárvirkjanir og meiri orka en öll íslensk heimili í landinu notuðu sameiginlega árið 2018. Þessi orkuhít er ekki síður alþjóðlegt vandamál en á heimsvísu þarf Bitcoin meira rafmagn en notað er á öllu Írlandi. Hér á landi kallar þessi uppbygging gagnavera á virkjun fossa og jarðhitasvæða – sem oftar en ekki eru hluti af ósnortnum víðernum. Það er því íslenskri náttúru sem blæðir og blóðtapið er umtalsvert.

Það má því spyrja: Er þetta þess virði? Bitcoin er fyrirbæri sem fæstir skilja og gjaldmiðill sem nær ekkert er notaður í hefðbundnum daglegum viðskiptum. Í staðinn hentar hann vel fyrir ógegnsæ viðskipti, t.d. starfsemi glæpahringja, enda erfitt að rekja greiðslur milli aðila. Auk þess sveiflast verðgildið eins og hjartalínurit, eða um 50% á síðastliðnu ári. Þessi „stóriðja“ getur því „gufað upp“ eins og síldin forðum. Og hvað gerir Eyjólfur þá?

Ekki bætir úr skák að gagnaver veita nær engin störf og greiða sáralitla skatta hér á landi. Það eru hins vegar orkufyrirtæki eins og HS Orka sem hoppa hæð sína, enda selja þau orku til gagnavera sem upphaflega var ætluð höktandi kísiliðju. En erlendir eigendur gagnavera eru frekir og vilja meira glópagull – og þá er bara að virkja meira. Þar er engu eirt eins og áætlanir HS Orku um virkjanir í Hvalá og Tungufljóti sanna. Áhugi fjárfesta er greinilega mikill því hlutabréf í fyrirtækinu ganga kaupum og sölum fyrir metfé. Er þetta rétt forgangsröðun? Viljum við Íslendingar nota orkuna okkar í svona brask og er virkilega þörf á frekari virkjunum?

Mér finnst svarið augljóst: Nei!




Skoðun

Sjá meira


×