Ólafur Jóhannesson, þjálfari Íslandsmeistara Vals í Pepsi Max-deild karla, sagði engar nýjar fréttir vera af Gary Martin og hans málum eftir uppþotið í gær.
„Það er engar fréttir. Engar fréttir eru engar fréttir. Það sem er vitað er búið að skrifa,“ sagði Ólafur við Vísi.
Ólafur tjáði 433.is í gær að Gary Martin mætti sinna sér nýtt lið þar sem að hann hentar leikstíl liðsins ekki en enski markahrókurinn er búinn að byrja alla þrjá leiki Valsmanna og skora tvö mörk.
Sjálfur segir Gary Martin í samtali við Vísi að hann verði áfram hjá Val nema að „það verði einhverjar ótrúlegar sviptingar“. Hann kveðst í miklu áfalli yfir þessum fréttum enda lokar félagaskiptaglugginn í dag og tíminn naumur til að finna sér nýtt lið.
Samkvæmt heimildum Vísis mætti Gary á æfingu hjá Val í gær en óvíst er hvort hann verði leikmaður Vals áður en dagurinn er úti.
Aðspurður hvort Gary Martin verði áfram á Hlíðarenda eftir 24 tíma svarar Ólafur Jóhannesson: „Ég veit ekki hvað gerist.“

