Konurnar tvær, hin norska Maren Ueland og hin danska Louisa Vesterager-Jespersen, voru á bakpokaferðalagi í Imlil-fjöllum í Atlasfjallgarðinum í Marokkó þegar þær voru myrtar á hrottalegan hátt í tjaldi sínu. Þrír marokkóskir menn, auk vitorðsmanns, hafa verið ákærðir fyrir að hafa framið morðin og tuttugu til viðbótar fyrir aðild að þeim.
Myrtu konurnar á „ISIS-mátann“
Í skjölunum eru raktar ítarlegar lýsingar mannanna á aðdraganda morðanna og verknaðinum sjálfum. Þá segja þeir frá hollustu sinni við ISIS og lýsa því hvernig þeir leituðu uppi ferðamenn til að myrða þá á „ISIS-mátann“.Mennirnir hittust reglulega og ræddu „hnignun“ samfélagsins í Marokkó, sem þeir töldu ekki samræmast ofsatrú sinni. Þá hafi dreymt um að fara til Sýrlands og berjast í nafni ISIS en ekki haft efni á ferðalaginu.

Segist sjá eftir morðunum
Þá er haft eftir hryðjuverkamönnunum að konurnar hafi verið að tjalda þegar þeir komu auga á þær. Einn mannanna skar gat á tjaldið og réðust þeir því næst til atlögu. Þá játaði annar mannanna að hafa tekið morðin upp á myndband, sem síðar komst í dreifingu á samfélagsmiðlum. Einn mannanna sagðist jafnframt sjá eftir morðunum.Þá áttu þremenningarnir sér vitorðsmann, sem var á ferð með þeim í fjöllunum, en hann tók þó ekki þátt í morðunum með beinum hætti. Talið er að hann hafi verið að undirbúa felustað fyrir félaga sína á meðan þeir frömdu voðaverkið.
Þessi fjórði maður gleymdi jafnframt skilríkjum sínum í tjaldinu, sem leiddi að lokum til handtöku þremenninganna.
Réttarhöld yfir 24 mönnum í tengslum við morðin, og þar á meðal höfuðpaurunum fjórum, hefjast í Marokkó á morgun, 16. maí. Verjandi mannanna segir í samtali við VG hann búist við því að þeir játi á sig hryðjuverk er þeir verða leiddir fyrir dómara á morgun.