Lögregla á höfuðborgarsvæðinu handtók í nótt tvo vegna líkamsárása í Reykjavík annars vegar og Hafnarfirði hins vegar.
Í dagbók lögreglu segir að maður hafi verið handtekinn í hverfi 108 vegna líkamsárásar. Var maðurinn mjög ölvaður og vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að taka skýrslu af honum.
Þá segir að annar maður hafi verið handtekinn í Hafnarfirði vegna líkamsárásar og fjársvika, og var hann vistaður í fangaklefa.
Einnig segir að tilkynnt hafi verið um rúðubrot í skóla í Kópavogi og voru gerendur farnir af vettvangi þegar lögreglu bar að garði.
Þá þurfti lögregla einnig að hafa afskipti vegna nokkurra ökumanna sem óku undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
