Halli frá Laugaveginum inn í Hjartagarðinn er langt yfir leyfilegum mörkum og brýtur gegn ákvæðum byggingarreglugerðar. Samkvæmt henni er mesti leyfilegi hallinn fimm prósent en hallinn í Hjartagarðinn, sem nýlega var endurnýjaður, er 15 prósent.
Vakin er athygli á þessu í aðgengisátaki Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) og segir Margrét Lilja Aðalsteinsdóttir, aðgengisfulltrúi ÖBÍ, að slík brot séu mun algengari en margur myndi halda.
„Við erum að reka okkur á þetta miklu oftar en maður myndi halda. Halli yfir fimm prósent hefur mjög mikil áhrif á hreyfihamlað fólk og fólk sem á erfitt með gang og hvað þá þegar hann er kominn upp í 15 prósent,“ segir Margrét. „Það er svolítið í hið brattasta.“
Hún segir að slík brot á byggingarreglugerðum séu nokkuð algeng en það sé þó ekki oft svo mikill halll eins og raun ber vitni í Hjartagarðinum.
Hún segir að það vanti eftirlit með því að byggingarreglugerðum sé fylgt eftir. „Það er ekkert eftirlit með því að reglum sé fylgt eftir og það er eitthvað sem þarf að breytast,“ segir Margrét.
„Þetta skerðir aðgengi allra, ekki bara þeirra sem þurfa á aðgengi að halda, heldur bara gangandi vegfarenda og já, allra,“ segir Margrét.
