Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu vegna ölvunar í miðborginni í gærkvöldi og í nótt. Einn var handtekinn eftir að hafa ráðist á lögreglumann og var hann vistaður í fangageymslu að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Laust eftir miðnætti var tilkynnt um umferðarslys í Hafnarfirði þar sem minniháttar slys urðu á fólki en annar ökumaður stakk af frá vettvangi og er hans leitað.
Um klukkan tvö í nótt var tilkynnt um eld þar sem kviknað hafði í bifreið en engin frekari hætta stafaði af eldinum.
Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir í umdæminu, grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
