Þrjú ár eru liðin frá nauðguninni og hún vill hvetja aðra sem lenda í því sama að stíga fram, leita sér hjálpar og kæra gerendurna en rætt var við Hörpu í Íslandi í dag á Stöð 2 í gær.
„Ég var fimmtán ára að læra undir stærðfræðipróf heima hjá mér þegar ég fæ skilaboð um að vinur minn sé kominn í minn heimabæ, en hann býr ekki þar. Ég ákvað að hunsa þetta og einbeita mér að því að læra undir mitt stærðfræðipróf,“ segir Harpa Dögg.
Byrjar að fara inn á mig
„Ég fæ síðan skilaboð um það hvort hann geti hitt mig þar sem honum liði ekki nægilega vel. Ég segi bara ekkert mál, þú getur komið,“ segir Harpa Dögg og í kjölfarið kemur maðurinn í heimsókn.„Við spjöllum bara og ég er alltaf að bíða eftir því að hann komi sér að efninu og að hann myndi segja eitthvað, en þetta var allt bara tilgangslaust spjall. Svo byrjar hann að fara inn á mig,“ segir Harpa og brotnaði þarna niður í viðtalinu.

Harpa segir að maðurinn hafi verið lengi að koma sér út og hún hafi lengi reynt að fá hann til að fara.
„Svo þegar hann fór, ég man ekki neitt eftir því og var bara í einhverju blackouti. Svo þegar ég mæti í skólann daginn eftir vissu allir krakkarnir að hann hefði verið heima hjá mér. Þau héldu öll að hann hafi verið þarna með mínu samþykki og ég bara spilaði með, því ég vissi ekki að þetta væri rangt,“ segir Harpa sem kenndi sjálfri sér um. Orðrómurinn um að þau hefðu verið saman fór um allan skólann. Hún vildi segja frá nauðguninni en þorði það ekki. Bæði vegna þess að hún var hrædd um að fólk myndi ekki trúa henni en líka vegna þess að hún var hrædd við viðbrögð foreldra sinna. Nauðgunin átti sér stað 14. desember fyrir þremur árum og eftir áramót var hún orðin máttlaus af hræðslu og sorg.
„Ég var þannig séð ekkert búin að sofa og ef ég sofnaði vaknaði ég alltaf upp eins og ég næði ekki andanum. Þetta var rosalega mikið, ég bauð honum heim, ég sagði að hann mætti koma,“ segir Harpa en svona gekk þetta þar til að hún var ein eftir í tíma með kennara sínum.

Skömmuðu mig ekki
Hún valdi þó að segja systur sinni frá fyrst svo hún gæti hjálpað henni að tala við foreldra þeirra. Um kvöldið settust þær systur niður með foreldrum sínum og sögðu alla söguna.„Þau skömmuðu mig ekki,“ segir Harpa en við tóku erfiðir tímar. Til að fá sálfræðihjálp þurftu hún að kæra glæpinn.
„Þá fór ég í baklás því ég vildi ekki að einhver annar myndi vita þetta. Mér fannst þetta vera feill hjá mér. Svona hlutir gerast ekki fyrir stelpur sem er góð. Ég hlýt að hafa gert eitthvað rangt til að verðskulda þetta,“ segir Harpa en það tók um eitt ár fyrir hana að átta sig á því að þetta væri ekki henni að kenna. Nauðgunin var kærð og þá fékk Harpa að hitta sálfræðing. Á þessum tímapunkti var hún á því að það myndi engu máli skipta að kæra.
„Það gengur ekkert, það virkar ekkert og alltaf bara fellt niður. Ég veit ekki einu sinni ennþá hvort þetta verði dómsmál,“ segir Harpa sem hefur hitt gerandann eftir nauðgunina.
„Hann kom í vinnuna til mín, þá var ég að vinna á hóteli, og ég fæ aftur sama glottið. Ég næ að halda andliti inn í eldhús en svo bara missti ég það,“ segir Harpa og bætir við að hún hafi fengið taugaáfall. Harpa segir að hún sé ekki fyrsta fórnarlamb mannsins og hann hafi nauðgað áður. Hún megi ekki segja nafnið hans því ef hann verði ekki sakfelldur gæti hún átt meiðyrðamál í vændum.
„Hann er ennþá að lifa sínu lífi í dag eins og ekkert hafi skeð.“
Hér að neðan má sjá viðtalið í heild sinni.