Fram kom í tilkynningu Hauka þann 1. apríl að Elías hefði óskað eftir að hætta þjálfun liðsins. Það væri sameiginleg niðurstaða handknattleiksdeildar og Elíasar að hann léti af störfum um leið.
Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, segir Elías Má hafa hætt af persónulegum ástæðum. Það sé löngu afgreitt. Aðspurður um ástæðurnar segir hann Elíasar Más að svara því.
„Ég bara get það ekki. Það varð bara samkomulag um starfslok, því miður,“ segir Þorgeir. Miklar kjaftasögur séu um brotthvarf hans en það sé Elíasar að tjá sig um það.
Elías Már vill lítið segja upp brotthvarf sitt frá Haukum skömmu fyrir úrslitakeppnina.

Hann segir ekkert annað hafa legið að baki starfslokunum á þessum sérstaka tímapunkti en að best væri að hann hætti á þessum tímapunkti því hann væri á leiðinni til starfa hjá HK.
„Ég er bara hættur í Haukum og tekinn til starfa hjá HK.“
Elías Már tók um mánaðarmótin við starfi yfirþjálfara HK og þjálfar auk þess karlalið félagsins á næstu leiktíð. Hann segist hafa hafið störf hjá HK fyrr en ætlað var, nú um mánaðamótin, og hann því ekki getað sinnt starfi aðstoðarlandsliðsþjálfara lengur.
Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, segist sömuleiðis hafa heyrt kjaftasögur um ástæður starfsloka Elíasar Más hjá Haukum. Þær kjaftasögur tengist þó á engan hátt starfsflokum hans hjá HSÍ. Elías Már hafi hætt að eigin frumkvæði vegna anna í nýja starfinu hjá HK.
Róbert reiknar með að tilkynnt verði um nýjan aðstoðarlandsliðsþjálfara í dag á sama tíma og kynntur verður nýr landsliðshópur fyrir komandi verkefni.
Uppfært klukkan 12:36
Óskar Bjarni Óskarsson tekur við starfi Elíasar Más. Nánar má lesa um landsliðshópinn fyrir leikina gegn b-liði Noregs og umspilsleikina við Spán hér.