Erlent

Ætla að tryggja að andstæðingar Ísraels skemmi ekki Eurovision

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Tel Aviv þar sem keppnin er haldin í ár.
Frá Tel Aviv þar sem keppnin er haldin í ár. Vísir/Getty
Ísraelsk stjórnvöld munu ekki hika við að meina einstaklingum inngöngu í landið sem hafa í hyggju að trufla Eurovision-söngvakeppnina sem fer fram í Tel Aviv í næstu viku.

Greint er frá þessu á vef breska dagblaðsins The Guardian en þar segir að Ísraelsmenn óttist að þeir sem eru andvígir stefnu þarlendra yfirvalda í varðandi Palestínumenn muni reyna að nýta sér Eurovision til að mótmæla því.

BDS-hreyfingin, sem berst fyrir sniðgöngu á ísraelskum vörum í ljósi framgöngu þeirra gegn Palestínumönnum, hefur sakað ísraelsk stjórnvöld um að nota tónlist til að hvítþvo stefnu sína gagnvart Palestínumanna á Vesturbakkanum og á Gaza.

Enginn af þeim 42 sem tryggðu sér þátttökurétt í Eurovison í forkeppnum í sínu landi hafa dregið sig úr keppni en skipuleggjendur hennar óttast að mótmælendur reyni að nýta hana til að koma boðskap sínum til skila til þeirra hundruð milljóna sem horfa á hana.

„Þetta verður risa partí þar sem þúsundir taka þátt en við munum vera á verði til að tryggja að enginn komi hér til að trufla eða skemma,“ er haft eftir talsmanni utanríkisráðherra Ísraels, Emmanuel Nahshon, á vef Guardian.

„Við viljum ekki meina neinum inngöngu í landið. En ef við vitum með vissu að einhver er á móti Ísrael og hefur það eitt á dagskrá að trufla viðburðinn þá munum við beita öllum löglegum aðferðum varðandi inngöngu,“ bætir Nahshon við.

Sú sem hafði sigur í Eurovision í fyrra, Netta Barzilai, hefur gagnrýnt þá sem ætla að sniðganga keppnina. „Þetta er hátíð ljóss. Þeir sem ætla að sniðganga hátíð ljóss dreifa myrkri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×