„Mér þykir leitt að hafa ekki getað verið með ykkur í dag, en þar sem ég ferðast ekki með flugvélum gat ég ekki komið,“ sagði Thunberg við ráðstefnugesti.
„En mig langaði bara að segja að við unga fólkið erum framtíðin. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda, hlýnun jarðar. Við unga fólkið sköpuðum ekki þann vanda. Við fæddumst bara inn í þennan heim þar sem vandamálið var þegar til staðar. Samt sem áður erum það við sem verðum fyrir mestum áhrifum af þessum vanda. Það er ekki sanngjarnt þannig að við verðum að gera eldri kynslóðir ábyrgar fyrir því sem þær hafa gert, og fyrir því sem þær halda áfram að gera okkur. Og við verðum að bregðast við strax því hver dagur sem líður án aðgerða er slys. Hvert ár sem líður án aðgerða er stórslys. Þannig að við verðum að gera eitthvað núna.“

Ávarp Thunberg í dag var á svipuðum nótum og þegar hún ávarpaði loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi í desember.
„Þið segið að þið elskið börnin ykkar heitar en nokkuð annað en samt eruð þið að stela framtíð þeirra beint fyrir framan nefið á þeim,“ sagði Thunberg við ráðamenn.
Ávarp hennar í Hörpu í dag má sjá í spilaranum að neðan.