Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Suður af landinu er að finna 980 millibara lægð sem stefnir norður og mun nú bæta í vindinn hér á Íslandi.
„Seinni partinn er útlit fyrir suðaustan hvassviðri eða storm, hvassast SV-lands, en heldur hægari vindur fyrir norðan. Hviður undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi, við Hafnarfjall, á norðanverðu Snæfellsnesi og víðar geta farið yfir 30 m/s. Með lægðinni fylgir talsverð rigning SA-lands, rigning með köflum um landið vestanvert fyrir hádegi og áfram að mestu bjart fyrir norðan. Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og á Miðhálendinu.“
Útlit er fyrir milt veður eða jafnvel upp í 15 eða 16 stiga hita fyrir norðan í dag og á morgun og stefnir í að Skagafjörður verði hlýjasti staðurinn þó að ekki sé á vísan að róa með það, að því er fram kemur.
„Næstu nótt dregur úr vindinum, en það er skammgóður vermir þar sem bætir aftur í suðaustanáttina á morgun og verður vindurinn ennþá öflugri en í dag. Annað kvöld stefnir í 18-25 m/s á S- og SV-verðu landinu. Áfram verður talsverð rigning á SA-verðu landinu, væta með köflum V-lands og þurrt fyrir norðan,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurhorfur næstu daga
Á laugardag: Vaxandi suðaustanátt, 15-25 m/s um kvöldið, hvassast S- og SV-til. Víða rigning um landið S-vert og jafnvel talsverð rigning á köflum, en úrkomulítið fyrir norðan. Hiti 7 til 15 stig.Á sunnudag (pálmasunnudagur): Minnkandi suðlæg átt, 8-15 m/s um kvöldið. Rigning um landið S-vert, talsverð SA-til, en þurrt fyrir norðan. Hiti 5 til 10 stig.
Á mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag (skírdagur): Suðlægar áttir og rigning með köflum, en að mestu þurrt norðanlands. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast fyrir norðan.