„Að sjálfsögðu hafnaði héraðsdómur þessari kröfu,“ segir Svein Andri Sveinsson, einn tveggja skiptastjóra í þrotabúi WOW air, um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að Sveinn víki ekki sem skiptastjóri búsins.
Forsvarsmenn Arion banka töldu störf Sveins Andra sem lögmaður Datacell í baráttu við Valitor, dótturfélag Arion banka, gera hann vanhæfan.
Símon Sigvaldason, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur, tók kröfu Arion banka fyrir og mat það svo að Sveinn þyrfti ekki að víkja. Símon var sá sem sá um að skipa Svein Andra sem skiptastjóra til viðbótar við Þorstein Einarsson.
„Nei, ég átti aldrei von á öðru. Þetta var nokkuð borðleggjandi,“ segir Sveinn Andri í samtali við Vísi um niðurstöðuna.
Sveinn Andri hafði skýrt út fyrir dómnum að skiptastjórarnir muni skipta með sér verkum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstur og mun Sveinn Andri því ekki koma nálægt kröfu Arion banka. Á sama hátt komi Þorsteinn ekki nálægt kröfu stórs viðskiptavinar sem hefði verið í viðskiptum við lögmannsstofu Þorsteins.

